Skatturinn myndi verða fyrir tæplega 159 milljón króna tekjutapi verði aðgangur að hlutafélaga- og ársreikningaskrá gerður gjaldfrjáls.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Skattsins við frumvarp þingflokks Pírata, Björn Leví Gunnarsson er fyrsti flutningsmaður, um aukinn aðgang að ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram en árið 2017 samþykkti Alþingi frumvarp Björn Levís um aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá. Þá gleymdist hins vegar að gera ráð fyrir ársreikninga- og hlutafélagaskrá.

Frumvarpið nú felur í sér að engin gjaldtaka skuli vera fyrir rafræna uppflettingu í skránum og að allar upplýsingar skuli birtast í rafrænni uppflettingu. Ekki er hins vegar fjallað um það hvort unnt sé að fá rafrænt afrit upplýsinganna gjaldfrjálst.

„Ekki er ljóst hvort eingöngu er um að ræða uppflettingar og þá án heimildar til að prenta út umræddar upplýsingar. Þá kemur ekki fram hvað átt við [sic!] með hugtakinu „almenningi“ og hvort um er að ræða takmarkanir eða rýmkun á veitingu þessara upplýsinga gjaldfrálst með því að tilgreina „rafræna“ uppflettingu og “almenning“ og hvort ætlunin er eftir sem áður að fyrirtæki o.fl. sem ekki teljist til almennings greiði fyrir þessar upplýsingar,“ segir í umsögn Skattsins.

Tekjur af þjónustugjöldum fyrir veitingu afrita hafa aukist undanfarin ár. Árið 2016 námu þær 129 milljónum en í fyrra stóðu þær í tæpum 159 milljón krónum. Segir Skatturinn að stofnunin myndi verða af verulegum rekstrartekjum sem bæta þyrfti stofnuninni með öðrum hætti.

Stofnunin bendir einnig á að, líkt og í fyrstu atrennu, sé ýmislegt í frumvarpinu sem betur mætti fara. Til að mynda tekur það aðeins til hlutafélaga en ekki einkahlutafélaga. Þá eru samvinnu- og sameignarfélög einnig ekki með í frumvarpinu.

Rétt er að geta þess að í vikunni var lagt fram á þingi frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um gagnsæi stærri kerfislægra fyrirtækja, þar sem meðal annars er kveðið á um að umræddir gagnagrunnar verði gerðir opnir og gjaldfrjálsir.