*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 5. desember 2017 11:26

Rafrænn köttur seldur á 12 milljónir

Mikill vöxtur hefur verið í leiknum CryptoKitties síðan hann var settur í loftið í síðustu viku, en hann byggir ofan á rafmynt.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Frá því að leikurinn CryptoKitties var settur í loftið í síðustu viku hefur vöxturinn verið svo mikill að rafmyntin sem styður við leikinn hefur lent í vandræðum við að höndla allar millifærslurnar sem leikurinn býr til.

Leikurinn sem snýst um að kaupa og versla með stafræna ketti, en einnig er hægt að láta ketti sem þú átt tímgast og þannig má rækta fram ketti með fágæt einkenni sem hafa verið að seljast á háar upphæðir í Ethereum rafmyntinni.

Á laugardaginn seldist einn köttur á 246,9 Ethereum, sem jafngildir í dag um 115 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem jafngildir tæplega 12 milljónum íslenskra króna.

Svipaðir leikir hafa verið til áður að því er síðan Mashable segir frá, en með því að byggja á Ethereum rafmyntinni þá eru viðskiptin skráð inn í kóða rafmyntarinnar, svo eignin er tryggð að því marki sem leikurinn er til staðar.

Eftir einungis um viku starfsemi hafa viðskipti með rafkettina hins vegar náð því að vera um 11,8% allra viðskipta með rafmyntina, og nýlega voru um 10 þúsund viðskipti sem voru í bið eftir því að vera afgreidd, sem er mun meira en hefðbundið er.

Stikkorð: Kettir rafmynt Ethereum