Velferðarráðuneytið segir óhjákvæmilegt að setja reglur um notkun rafsígaretta hér á landi því lagaumgjörð um þær skorti sem skylt sé að setja vegna innleiðingar Evróputilskipunar á sviði tóbaksvarna.

Vísar frétt ráðuneytisins í tilskipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB, þar sem kveðið er á um reglur innri markaðar ESB vegna framleiðslu, kynningar og sölu á tóbaki og tengdum vörum.

Meðal þess sem þar kemur fram er að aðildarríkjunum sé skylt að setja heildstæðar reglur um rafsígarettur, sem sagðar eru geta leitt til nikótínfíknar ásamt því að stuðla að hefðbundinni tóbaksneyslu, þar sem með notkun þeirra sé líkt eftir hefðbundnum sígarettureykingum.

Er í fréttinni áréttað það sem fram hefur komið áður að samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpsdrögum munu sömu reglur gilda um sölu og markaðssetningu á rafsígarettum og nú gildi hér á landi um tóbak, auk þess að sömu reglur munu gilda um neyslu þeirra. Þannig verður óheimilt að nota rafsígarettur á opinberum stöðum, líkt og Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur þegar boðað.