Viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs geta nú unnið eigið, rafænt greiðslumat og sótt um lán sjóðsins á vefsíðunni Íbúðalán.is. Á Íbúðalán.is verður einnig unnt að bera saman mismunandi lánamöguleika þeirra sem bjóða íbúðalán á Íslandi, jafnframt því að þar er að finna faglega ráðgjöf um hvaðeina er viðkemur fasteignaviðskiptum.

Íbúðalán.is er samstarfsverkefni Íbúðalánasjóðs, Félags fasteignasala, SPRON og Sambands íslenskra sparisjóða. Því er einnig unnt að vinna greiðslumat og lánsumsókn vegna lána sparisjóðanna á Íbúðalán.is

Íbúðalánasjóður hefur gert samning við sparisjóðina og SPRON um að veita þeim viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs sem það kjósa aðstoð og ráðgjöf við vinnslu greiðslumats vegna lána Íbúðalánasjóðs.

Jafnframt skuldbinda sparisjóðirnir sig til að bjóða upp á val um heildstæða fjármögnun íbúðakaupa með lánum frá Íbúðalánasjóði eða eigin íbúðalánum. Í því felst að boðin verði annars vegar fjármögnun Íbúðalánasjóðs eingöngu og hins vegar fjármögnun sparisjóðanna annað hvort ein sér eða ásamt láni Íbúðalánsjóðs umfram þau mörk sem sjóðurinn býður á hverjum tíma.

Sambærilegur samningur stendur öðrum lánastofnunum til boða. Vonir standa til að Íbúðalán.is verði virkur upplýsingamiðill til íbúðakaupenda og öflugur samkeppnisvettvangur þeirra sem bjóða íbúðalán á Íslandi.