Bílaframleiðandinn VolksWagen í Þýskalandi hefur tilkynnt að það hyggist bjóða þeim sem ekki vilja eða geta eignast eigin bíl að hafa aðgang að þeim í ýmsum borgum landsins.

Á þjónustan, sem mun nýta rafknúna bíla fyrirtækisins, verða í boði í stærstu borgum Þýskalands strax á næsta ári. Árið 2020 hyggst fyrirtækið síðan bjóða þjónustuna í helstu borgum Evrópu, Norður Ameríku og Asíu. Er þjónustunni ætlað að keppa við svipaða þjónustu á vegum þýsku bílafyrirtækjanna BMW og Daimler, DriveNow og Car2Go, sem stefnt er að sameina.

Að mati Reuters fréttastofunnar er nýja þjónustan liður í aðgerðum fyrirtækisins til að sleppa undan skugga útblásturshneykslisins frá árinu 2015 þegar kom í ljós að dísilbílar fyrirtækisins voru hannaðir til að menga minna í prófunum en alla jafna.

Árið 2016 setti fyrirtækið upp dótturfyrirtækið Moia sem býður upp á að deila ferðum með bílum en nýja þjónustan kemur til viðbótar við hana.

Fyrirtækinu nauðsynlegt að mati nýs forstjóra

Nýr forstjóri VolksWagen, Herbert Diess, sem tók við stöðunni í apríl síðastliðnum, segir það fyrirtækinu nauðsynlegt að ná að setja mark sitt á þjónustur af þessum toga. Telur fyrirtækið að stór hluti af rekstri fyrirtækisins geti komið frá slíkri þjónustu í framtíðinni.

Franski bílaframleiðandinn Renault tilkynnti einnig í dag um að hann hyggist koma á slíkri deilibílaþjónustu sem á að koma í gagnið í París og nágrenni strax í september.

Bæði Renault og PSA, sem framleiðir Peugeot bílana, keppa að því að bjóða upp á slíka þjónustu í borginni í stað Autolib sem franski auðjöfurinn Vincent Bollore á, sem borgarstjórnin hefur sagt upp samningum við vegna deilna.