Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ráðgert að Landsbankinn fjármagni áframhaldandi vinnu við smíði Tónlistarhússins út verktímann. Þegar verkefninu verður lokið mun ríki og borg væntanlega fara að borga inn á það lán samkvæmt samningi frá 2004 í formi leiguígildis af byggingunni á 35 árum.

Samkvæmt þessum heimildum er ekki gert ráð fyrir að ríki og borg reiði fram nýja fjármuni til verkefnisins fyrr en byggingu líkur. Ætti því ekki að þurfa að taka fé úr öðrum verklegum framkvæmdum hjá ríki og borg á byggingartíma hússins eins og útlit var fyrir.

Talsmaður Landsbankans sagðist ekkert geta staðfest um fjármögnun verkefnisins. Einungis að staða mála varðandi framhald byggingarframkvæmda Tólistarhússins væri flókin, m.a. varðandi yfirtöku Austurhafnar á Portusi. Kapp væri lagt á að ná fram ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla aðila, en hagsmunir þeirra sem að málinu koma séu ólíkir. Líklegt væri t.d. að ríkið og Reykjavíkurborg þyrftu að koma að málinu með beinum hætti. Ekkert væri þó hægt að gefa frekar upp um stöðu mála að svo stöddu, en vísað er í sameiginlega yfirlýsingu Austurhafnar, NBI og Landsbanka Íslands frá 9. janúar sl., en þar segir:

„Í kjölfar fjármálakreppunnar í október sl. hafa hagsmunaaðilar unnið að því að leysa málefni Portusar hf., byggingaraðila Tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar, og tryggja þannig framgöngu verkefnisins.

Allir þeir sem að málinu koma hafa frá upphafi haft fullan vilja til að finna því farsæla lausn og unnið ötullega að framgangi þess á undanförnum vikum. Lausn málsins hefur dregist sökum umfangs verkefnisins og flókinna hagsmunatengsla málsaðila.

Allt kapp hefur verið lagt á að ná fram ásættanlegri tillögu sem hefur það að markmiði að tryggja byggingu Tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar.”