Louis Basenese gullspekúlant í ráðgjafahópi í svokölluðum Oxford klúbbi ráðleggur fólki að halda að sér höndum í gullkaupum um þessar mundir. Frekar eigi að selja meðan flestir séu enn í kauphugleiðingum. Bendir hann m.a. á tenginguna við olíuverðið sem rök fyrir máli sínu. Gullverð hefur fallið undanfarna daga og stendur nú í rúmum 935 dollurum únsan.

Louis Basenese segir í grein í Investment, sem er sérútgáfa Oxford kúbbsins, að sagan sýni að fyrir únsu af gulli hafi að jafnaði fengist 14 tunnur af olíu. Nú sé olíuverðið í kringum 70 dollara á tunnu og það fáist 16 tunnur fyrir gullúnsuna. Með öðrum orðum gullverðið sé um 15% yfir sögulegu viðmiði.

Varðandi viðmið á gull- og silfurverði er dæmið enn ýktara að sögn Basenese. Í sögulegu samhengi hafi að jafnaði fengist 31 únsa af silfri fyrir hverja gullúnsu. Nú fást 66 únsur af silfri fyrir gullúnsuna. Það þýðir að gullverðið er 113% yfir sögulegu viðmiði við silfur. Segist Basenese fremur veðja á að gullverð falli um 53% en að silfurverðið tvöfaldist í verði.

Þá bendir Basenese á að 75% eftirspurnar á gulli komi frá skartgripamarkaðnum og sú eftirspurn hafi dregist verulega saman. Menn skuli ekki halda að gullkaup opinberra aðila og spákaupmanna muni vega upp minni eftirspurn. Þá hafi fjöldi vogunarsjóða sem helst hafi lánað fé til gullkaupa farið á hvolf.

Hann segir einnig að efnahagskreppan í heiminum hefði átt að leiða til þess að menn fjárfestu frekar í gulli en áður. Flestir sérfræðingar hafi spáð því að vegna kreppunnar færi gullverðið yfir 1.032 dollara á únsu á árinu, m.a. 16 af 24 sérfræðingum í London sem Bloomberg fréttaveitan spurði álits. Þetta hafi þó ekki gengið eftir.

Þá biður Louis Basenese menn að staldra aðeins við áður en þeir afskrifi hann sem algjört fífl í þessum fræðum. Vísar hann þar til þess að drifkraftur viðskipta fjárfesta undanfarna mánuði séu mjög varfærnar fjárfestingar þar sem helst er ekki fest fé í öðru en því sem taldar eru öruggar eignir. Sama muni eiga sér stað á komandi mánuðum. Þegar fjárfestar muni loks öðlast kjark að nýju til að fara í áhættumeiri fjárfestingar þá muni verð þessara eigna falla. Það sé þegar að gerast varðandi námurnar. - „Ég er sannfærður um að gullið er næst,” segir Louis Basenese.