„Ég leyfi mér að vera bjartsýn. Við erum með góða „vöru“ til sölu og hún mun seljast að lokum. En það tekur tíma að semja og klára verkefni,“ segir Ragna Árnadóttir, nýráðinn aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Í sérstöku Orkublaði sem fylgdi síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Rögnu um Landsvirkjun og nýja starfið.

Þar er m.a. komið inn á að Landsvirkjun hafi ekki skrifað undir orkusölusamning í nokkur ár. Ragna svarar því til að endursamið hafi verið Alcan sumarið 2010 og sé það næststærsti samningur sem gerður hafi verið hér á landi. Þá hafi fyrstu gagnaverin jafnframt tekið til starfa á Íslandi.

Ragna segir það taka langa tíma, jafnvel nokkur ár, að undirbúa samninga, eiga viðræður við hlutaðeigandi og fleira því tengdu. Þá séu aðstæður á fjármálamörkuðum þess eðlis um þessar mundir að menn stígi varlega til jarðar.

„Þetta snýst líka um að hafa ákveðna þolinmæði. Við erum með mjög mikil verðmæti og okkur er skylt að far avel með þau,“ segir Ragna.

Viðtalið við Rögnu Árnadóttur má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.