„Þetta var partur af ævintýraþrá og svolítilli óþekkt. Ég fékk foreldra mína inn á þetta bæði með hótunum og bænum," segir Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, sem ólst upp í Kópavogi en hélt norður í land til að sækja nám við Menntaskólann á Akureyri.

„Afi minn og amma höfðu bæði útskrifast frá MA og ég notaði það sem afsökun til að fá að fara. Við fórum þá saman við vinkonurnar. Þessi tími var alveg frábær, mjög skemmtilegur og lærdómsríkur. Ég fór þangað alveg blaut á bak við eyrun og vissi ekki neitt í rauninni,“ segir Ragna.

Á fyrsta árinu í MA var Ragna full mikið að skemmta sér að eigin sögn. „Það átti ekkert að leyfa mér að halda áfram í skólanum. Það var þannig að skólameistari, sem þá var Tryggvi Gíslason, tók mig á beinið sem kallað var. Hann spurði mig hvort það væri ekki ráð að ég færi í skóla heima hjá mér þar sem foreldrar mínir gætu fylgst betur með mér. Ég lofaði bót og betrun og fékk að halda áfram. Ég var voða dugleg eftir það og lagði mig meira fram,“ segir Ragna.

Ragna Árnadóttir er í ítarlegu viðtali í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kemur út í fyrsta skipti í dag með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.