Tími Rögnu í ráðherrastól var viðburðaríkur og Ragna mældist með mikið traust í könnunum sem gerðar voru á þeim tíma. Aðspurð hvort þetta hafi verið skemmtilegur tími svarar Ragna að þetta hafi verið áhugavert en jafnframt gríðarlega krefjandi verkefni. „Ég naut mín alveg í vinnunni en ég tók þetta fullmikið inn á mig. Það sem gaf mér þó yndi og ánægju voru jákvæð viðbrögð og þegar maður fékk stuðning. Það vó upp á móti þeim stundum þegar maður fékk skömm í hattinn. Opinber umræða getur verið mjög óvægin á netinu og annars staðar. Ég hef enga skel, ég hef hana bara ekki. Reyndi að hafa þetta flatt. Það tókst auðvitað alls ekki því ég er alls ekki þannig skapi farin."

Haustið 2010 lét Ragna af störfum sem ráðherra og við tók rólegra tímabil sem entist þó ekki lengi. „Auðvitað var þetta mjög skrýtið. Þetta var búin að vera mikil vinna og mikið álag. Svo var þetta allt í einu búið. Það liðu þarna tæpir þrír mánuðir og ég byrjaði á því að taka mér frí. Ég horfði mikið á sjónvarpsþætti, horfði á Mad Men og Six Feet Under. Ég veit ekki hvað það eru margir þættir en þeir eru ótalmargir. Það var bara verkefni hjá mér í tvær vikur að horfa á þætti. Þetta er nú örugglega sammerkt með fólki sem hefur tekið þátt í opinberu þjóðlífi á þennan hátt. Vera í þessari hringiðu og svo ertu allt í einu úti í horni og enginn hringir í þig. Ég hugsaði með mér að nú væri komið að ákveðnum kaflaskilum.“

Ragna Árnadóttir er í ítarlegu viðtali í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kemur nú út í fyrsta skipti með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.