Nelson Mandela, sem lést í nótt, hitti nokkra Íslendinga á meðan hann lifði. Á meðal þeirra er Ragna Sara Jónsdóttir fjölmiðlamaður og núverandi forstöðumaður samfélagslegrar ábyrgðar hjá Landsvirkjun.

Ragna Sara hitti Mandela árið 2001. „Ég var í heimsreisu og var að skrifa pistla fyrir mbl.is og Morgunblaðið,“ segir Ragna Sara. Hún hafi velt því fyrir sér hvort það væri einhver sem hún yrði að reyna að hitta í heimsreisunni. Fljótlega hafi nafn Mandela komið upp í hugann. Hún hafi strax ákveðið að reyna að fá viðtal við hann. Það tókst og þau hittust í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.

„Hann var rosalega hlýr og mikil persóna, en ákveðinn samt sem áður. Hann ígrundaði vel öll sín svör og allt sem hann sagði var vandlega hugsað,“ segir Ragna Sara. Hann hafi því verið vandaður en samt léttur og hlýr og kallað hana með sínu fyrsta nafni. Hann hafi komið þannig fram að henni hafi liðið eins og gömlum vini sem hefði ekki séð hann í langan tíma.

Mandela var orðinn áttatíu og þriggja ára gamall þegar Ragna Sara hitti hann. Hún segir að hann hafi verið alveg ótrúlega hress. „Ég flaug til Jóhannesarborgar til að hitta hann og sá í sjónvarpinu kvöldið áður en ég ætlaði að hitta hann að hann var að koma til Zambíu. Svo ég hugsaði með mér að hann hefði bara gleymt því að hann ætlaði að hitta mig. En svo var hann bara mættur á skrifstofuna daginn eftir,“ segir hún.

Hún segir að það hafi verið mjög flókið að nálgast hann. Hún hafi verið búin að reyna í marga mánuði að ná fundi með honum í gegnum skrifstofu hans og starfsfólk. Á endanum hafi hún fengið kjark til þess að fara með bréf á heimili hans. Þá hafi hann sennilegast tekið á móti bréfinu sjálfur og hlutirnir gengið upp eftir það. Ragna Sara segir að þetta lýsi honum ef til vill best. Hann hafi verið maður fólksins.

Syrgja Mandela.
Syrgja Mandela.

Ragna Sara segir að kynni hennar af Mandela hafi verið mjög stutt. „Ég spurði hvort hann vildi ekki koma til Íslands. Hann talaði mjög fallega um Ísland og Norðurlöndin og sagði að þau væru góðar fyrirmyndir varðandi jafnrétti og réttlæti,“ segir hún. Enda hafi hann unnið statt og stöðugt að því að vinna að jafnrétti fyrir allar manneskjur.

„Ég held að allir af minni kynslóð og kynslóðunum í kringum hana líti á hann sem þann leiðtoga 21. aldarinnar sem kenndi okkur eitthvað. Hann kenndi okkur að vinna saman og að fyrirgefa,“ segir Ragna Sara. Það sé magnað að heyra lýsingarnar, ekki bara af því þegar hann er að koma úr fangelsinu, heldur einnig hvernig hann tókst á við þjáningar sínar í fangelsinu. „Það sem bjargaði honum var að hann sá alltaf eitthvað mannlegt í kvölurum sínum. Hann sá alltaf eitthvað gott í öllum, líka í fólkinu sem var að pynta hann,“ segir Ragna Sara.