Efnahagsvandi landsins stafar ekki af krónunni heldur af lélegri hagstjórn, að sögn Ragnars Árnasonar, prófessors við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann hélt erindi á ráðstefnu Arion banka um möguleika landsins í gjaldmiðilsmálum.

Ragnar benti á ýmsar rangfærslur um hagkerfi landsins, m.a. að það væri minnsta hagkerfi heimsins með minnstu myntina. Þá sagði hann sömuleiðis ekki rétt að tækju Íslendingar upp evrur í stað krónu myndu vextir verða lágir og stöðugleiki nást í hagstjórn landsins. Þvert á móti benti hann m.a. á að 52 ríki af 230 væru með færri íbúa en Ísland og nálægt 100 með minni verga landsframleiðslu.

Ragnar sýndi fram á að vextir í evrulöndunum væru síður en svo mjög lágir og fjarri því þeir sömu í öllum löndunum. Vextir evruríkjanna hafi lækkað í fjárkreppunni og færst nálægt því að vera sambærilegir landa á milli. Síðustu misserin hafi tekið að skilja á milli á nýjan leik.

Þá sagði Ragnar að hagvöxtur hafi verið 2,03% hér að jafnaði frá árinu  2001 til 2011. Það er um og yfir 0,5% yfir meðalvexti í nágrannaríkjunum á sama tíma. Hagvöxtur innan evruríkjanna nam 1,09%.

„Myntin ræður engu um þessa hluti. Ef við erum með góða hagstjórn þá fáum við það sem er kallað góð mynt,“ sagði hann og áréttaði að hagstjórnin verði að vera mjög slæm hér á landi til að réttlæta upptöku annarrar myntar á borð við evru.