Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist vera lítt hrifinn af þeim hugmyndum að Bláfugl og Play fylli í skarð Icelandair komi til gjaldþrots þess síðastnefnda. Hann segist ætla að beita sér af krafti fyrir björgun Icelandair þrátt fyrir að hafa gagnrýnt stjórnendur Icelandair fyrir framgöngu sína gagnvart starfsfólki félagsins.

„Fá hér flugfélög í skattaskjólsbraski sem veigra sér ekki við að úthýsa störfum til Indlans eða Filipseyja eða hverra landa sem réttindi og laun eru lægst fyrir mestu vinnuna? Setja svo restina á gerfiverktöku í gegnum starfsmannaleigur?“ segir Ragnar Þór í uppfærslu á Facebook síðu sinni.

Sjá einnig : Bláfugl og Play tryggja flugsamgöngur

Fyrir rúmri viku brýndi Ragnar Þór fyrir starfsmönnum flugfélagsins að láta ekki kúga sig út í stórfelldar launalækkanir og afsal réttinda. Uppfærsla Ragnars í dag var birt klukkutíma fyrir fund Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hjá ríkissáttasemjara sem hófst klukkan 14 í dag.