Sparisjóður Norðurlands og Sparisjóður Bolungarvíkur sameinuðust í gær undir merkjum þess fyrrnefnda. Aðalfundir í sparisjóðunum voru haldnir á föstudag og mánudag þar sem sameiningin var samþykkt og í beinu framhaldi var haldinn stofnfjárfundur nýs sparisjóðs. Athygli vekur að Ragnar Birgisson, fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs Bolungarvíkur og formaður Sambands íslenskra sparisjóða tekur ekki sæti í stjórninni.

Ragnar segir í samtali við Viðskiptablaðið að ástæða þess að hann hætti á þessum tímapunkti sé sú að Bankasýsla ríkisins, sem á stærstan hlut í sparisjóðnum, hafi ákveðnar endurnýjunarreglur. Það hafi verið stefna Bankasýslunnar að stjórnarmenn sitji ekki í of langan tíma. Hann segir einnig að komið hafi fram kvartanir vegna þess að stjórnir sparisjóðanna hafi ekki verið mannaðar í nægilega miklum mæli af heimamönnum. Sökum þess hafi Bankasýslan ákveðið að ráða einungis fólk úr héraði til að sitja í stjórninni.

Nýja stjórn skipa Hólmgeir Karlsson, Auður Hörn Freysdóttir, Anna Jörundsdóttir, Gísli Jón Hjaltason og Sóley Ragnarsdóttir. Sparisjóðsstjóri er Jónas Mikael Pétursson.