Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur svarað Guðmundi Guðmundssyni, þjálfara íslenska handboltalandsliðsins, í harðorðum pistli á Facebook .

„Verkalýðsforkólfar fara nú hamförum og það kemur ekki á óvart að þar fer Ragnar Þór Ingólfsson fremstur í flokki enda hefur hann tamið sér að vera stóryrtur mjög,“ hefur Vísir eftir skrifum Guðmundar á Facebook.

Guðmundur segir að samninganefnd FFÍ og stór hluti félagsmanna þeirra samtaka virðast ekki hafa áttað sig á að núverandi aðstæður, hvað flugrekstur varðar, eru fordæmalausar. „Staða Icelandair og annarra flugfélaga er slík að án verulegra hagræðinga og þar með launalækkana munu þau ekki lifa af.“

Ragnar Þór svaraði Guðmundi rétt fyrir tólfleytið í dag þar sem hann dregur meðal annars upp störf Guðmundar fyrir Kaupþing og segir að honum ætti að „vera ljóst hver ítök lífeyrissjóðanna voru í íslensku viðskiptalífi og hvernig þeim var kerfisbundið beitt fyrir ákveðnar viðskiptablokkir án afskipta verkalýðshreyfingarinnar.“

Ragnar fer síðan út myndlíkingar við handboltaheiminn og spyr Guðmund hvort það væri ekki eðlileg krafa að stjórn Icelandair yrði skipt út eftir rangar ákvarðanir árum saman.

„Ef þú værir þjálfari stórliðs í handbolta og hefðir lítið gert annað en að taka rangar ákvarðanir, árum saman, ekki unnið neitt þrátt fyrir öflugan leikmannahóp og aðgang að endalausu fjármagni til leikmannakaupa. Væri eðlileg krafa frá stuðngsmönnum liðsins að gerðar væru breytingar í brúnni? Breytingar á stjórn og þjálfarateymi sem kæmu fram af fádæma hroka gagnvart leikmönnum og stuðningsmönnum?“

„Við stöndum á tímamótum Guðmundur, tímamótum þar sem verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar. Við getum ekki og munum ekki standa á hliðarlínunni eða sem áhorfendur eins gert var í síðasta hruni. Við gerum kröfu um að endurreisnin fari fram með nýrri stjórn og þjálfarateymi, sem hlýtur að vera eðlileg krafa,“ segir Ragnar.

Hið nýja viðmið á íslenskum vinnumarkaði verði lífskjör á Filippseyjum og í austur Evrópu? Guðmundur Guðmundsson...

Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Saturday, 18 July 2020