„Mér leist vel á myndina og langaði að styrkja gott málefni. En ég á eftir að ákveða hvar hún verður,“ segir Ragnar Gunnarsson, einn af eigendum auglýsingastofunnar Brandenburg. Hann keypti á uppboði í gærkvöldi ljósmynd GeiraX af þeim Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, og Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, etja kappi í sjómanni. Myndin var tekin sérstaklega fyrir uppboðið og seldist á 120 þúsund krónur. Þetta var dýrasta ljósmyndin sem seldist á uppboðinu.

Ragnar Gunnarsson Fíton ehf.
Ragnar Gunnarsson Fíton ehf.
© BIG (VB MYND/BIG)

Helstu ljósmyndarar landsins héldu uppboðið og gáfu myndir sem boðnar voru upp til að styðja fjárhagslega við bakið á kollega þeirra í faginu, Ingólfi Júlíussyni, sem nýverið greindist með bráðahvítblæði. Hann hefur verið á sjúkrahúsi síðan í október en fer í mergskipti í Svíþjóð eftir áramótin. Rúmlega tvær milljónir króna söfnuðust á uppboðinu.

Keypti tvær myndir

Þetta var ekki eina myndin sem Ragnar keypti á uppboðinu. Hann keypti sömuleiðs stóra mynd eftir ljósmyndarann Hörð Sveinsson af meðlimum hljómsveitarinnar Retro Stefson stilla sér upp fyrir myndatöku. Ekki liggur fyrir hversu mikið Ragnar greiddi fyrir myndina. Talið er að það hafi verið um 80 þúsund krónur.

Ragnar segir í samtali við vb.is að hann hafi keypt myndina af þeim Steingrími og Bjarna fyrir sjálfan sig. Brandenburg hefur verið með myndina af Retro Stefson að láni frá Herði þar til nú. „Okkur fannst myndin þurfa að vera áfram hérna,“ segir Ragnar.

Ragnar er ekki kominn með myndirnar í hendur en þær hafa verið í vörslu Gallerí Foldar síðan í gærkvöldi.