„Þetta kom mér á óvart. Ég held að þetta sé fordæmalaust,“ segir lögmaðurinn Ragnar H. Hall um réttarfarssekt sem dómari í Al Thani-málinu lagði á hann. Ragnar var upphaflega verjandi fjárfestisins Ólafs Ólafssonar í málinu í vor. Hann og Gestur Jónsson, sem var verjandi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, báðust báðir lausnar frá málinu í vor á þeim forsendum að brotið hafi verið á hagsmunum skjólstæðinga sinna og mannréttindi þeirra fyrir borð borin í málsmeðferðinni. Fyrirhuguðum réttarhöldum var því frestað fram á haust og þeim Sigurði og Ólafi skipaðir aðrir verjendur. Dómur féll í málinu í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Ragnar segir í samtali við VB.is sektina háa og rifjar upp að fyrir nokkrum árum hafi lögmaður verið sektaður um 100 þúsund krónur fyrir að láta eins og asni í dómssal. Hann og Gestur hafi hins vegar ekki talið að þeir hafi átt annan kost en að biðjast lausnar frá málinu og færðu þeir ítarleg rök fyrir máli sínu á sínum tíma.

„Dómari er greinilega á annarri skoðun,“ segir Ragnar en leggur áherslu á að hann hafi ekki lesið dóminn í málinu.