Ragnar Önundarson hefur sagt sig úr stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Ragnar var forstjóri Kreditkorta hf., rekstaraðila Mastercard á Íslandi, sem gerðist sekt um samkeppnislagabrot á meðan að hann gegndi því starfi. Kastljós sagði frá gögnum málsins í gærkvöldi og opinberaði meðal annars tölvupóstsamskipti Ragnars við forstjóra stærsta samkeppnisaðila hans.

Í tilkynningu frá VR segir að: Ragnar Önundarson hefur tilkynnt að hann dragi sig í hlé frá störfum í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Sjá fréttatilkyningu frá VR að neðan.

"Í ljósi nýrra upplýsinga sem fram komu í Kastljósi Sjónvarpsins í gær hafði formaður VR, Kristinn Örn Jóhannesson samband við Ragnar Önundarson en hann situr í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir hönd félagsins. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er einn öflugasti lífeyrissjóður landsins og gegnir leiðandi hlutverki í endurreisn efnahags- og atvinnulífi landsins.

Fyrir hádegið í dag afhenti Ragnar Önundarson formanni VR bréf þar sem hann skýrir frá að hann hafi dregið sig í hlé frá störfum í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hann hefur óskað eftir að varamaður verði boðaður á stjórnarfund sem verður haldinn í hádeginu í dag.  Ragnar skýrir í bréfi sínu jafnframt frá því að hann hafi í hyggju að láta að fullu af störfum í stjórninni í nánara samkomulagi við stjórn VR.”

Bréf Ragnars má lesa hér.