Ragnar Hall, lögmaður Ólafs Ólafssonar, eins aðaleiganda gamla Kaupþings, fór í dag fram á það við Héraðsdóm að aðalmeðferð í hinu svokallaða Al-Thani máli yrði frestað vegna þess að saksóknari lagði í dag fram ný gögn í málinu. Dómari varð ekki við kröfu Ragnars og hefst aðalmeðferð því þann 11. apríl næstkomandi.

Meðal þeirra gagna sem saksóknari lagði fram í dag var uppgjörssamningur katarska sjeiksins Al-Thani við slitastjórn Kaupþings sem og endurrit af símtölum sem hleruð voru í Lúxemborg.

„Saksóknari heldur því fram að við höfum haft nægan tíma til að undirbúa málið því ákæra var birt fyrir um ári síðan. Það er hins vegar enn verið að leggja fram gögn í málinu og því alls ekki hægt að fullyrða að við höfum haft heilt ár til undirbúnings. Þá er athugunarvert að saksóknari hefur haft þau gögn, sem lögð voru fram í dag, í nokkrar vikur og hefði því getað lagt þau fram fyrr.“

Ragnar segir að verjendur sakborninga hafi óskað eftir því að saksóknari legði fram uppgjörssamning Kaupþings og Al-Thani. „Samningurinn skiptir miklu máli, því málatilbúningur ákæruvaldsins byggir á því að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða þegar Al-Thani keypti 5,01% hlut í Kaupþingi fyrir fall bankans. Ef um sýndarviðskipti væri að ræða þá væri hann hins vegar ekki að greiða slitastjórninni fé vegna viðskiptanna,“ segir Ragnar.