Verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í Al-Thani málinu svokallaða, þeir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, hafa sagt sig frá málinu. Sendu þeir bréf þess efnis til Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Þar kemur fram að kornið sem fyllti mælinn hafi verið dómar sem féllu síðastliðinn fimmtudag. Þar vísaði Hæstiréttur m.a. frá kröfu sakborninga í málinu um að aðalmeðferð í málinu yrði frestað.

Meðal annarra atriða sem nefnd eru í bréfum Gests og Ragnars er að upptökur af símtölum sakborninga við verjendur sína hafi ekki verið eytt, eins og lög kveði á um, heldur hafi þær verið spilaðar fyrir sakborningana.

Taka ber fram að frá því að þetta viðtal var tekið hefur héraðsdómari hafnað beiðni þeirra Ragnars og Gests um að verða leystir frá störfum.