Myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson myndlistarmaður hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2013. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Kjarvalsstöðum í dag. Verðlaunagripurinn er úr áli og nemur verðlaunaféð einni milljón króna.

Íslensku bjartsýnisverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1981. Þau eru hugsuð sem viðurkenning og hvatning til íslenskra listamanna. Upphafsmaður verðlaunanna var Daninn Peter Bröste en álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl þeirra síðan Bröste dró sig í hlé árið 2000.

Selur verk fyrir tugi milljóna

Fram kemur í tilkynningu að Ragnar nam myndlist við Myndlista- og handíðaskólann og síðar Listaháskóla Íslands og Konunglegu listaakademíuna í Stokkhólmi. Verk hans hafa verið sýnd við góðan orðstír á listasöfnum og listahátíðum víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Austurríki og á Ítalíu. Hann hefur tvisvar tekið þátt í Feneyjatvíæringnum, fyrst árið 2009 sem fulltrúi Íslands og aftur á liðnu ári að beiðni listræns stjórnanda hátíðarinnar.

Fram kom í umfjöllun um Ragnar í Viðskiptablaðinu fyrir áramót að búið sé að selja öll sex eintökin af verkinu The Visitors eftir Ragnar. Hvert þeirra fór á 120 þúsund Bandaríkjadali, jafnvirði rúmra 14 milljóna króna. Söluandvirði verkanna allra nam þessu samkvæmt um 84 milljónum íslenskra króna. Á meðal kaupenda voru virt söfn á borð við Nútímalistasafnið í New York (MoMA) og í San Fransisco auk Migros safnsins í Zurich í Sviss. Eintakið sem frumsýnt var hér á landi í galleríi Kling og Bang er í eigu barónessunnar Francescu von Habsburg í Thyssen-Bornemisza Art Contemporary-stofnun hennar í Vínarborg.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var formaður dómnefndar og kynnti hún valið við athöfnina í dag. Aðrir í dómnefnd verðlaunanna eru Rannveig Rist, Sveinn Einarsson og Örnólfur Thorsson.