Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður hefur verið valinn til að sýna fyrir Íslands hönd á tvíæringnum í Feneyjum árið 2009. Feneyjatvíæringurinn er einn helsti viðburður á alþjóðlegum myndlistarvettvangi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra tilkynnti um fulltrúann á upplýsingafundi um Tvíæringinn í Listasafnin Íslands fyrir skömmu.

Í fréttatilkynningu vegna tilnefningarinnar segir að með vali Ragnars tefli Ísland fram ungum lista­manni sem hefur á skömmum tíma byggt upp eftirtektarvert höfundarverk og sýningarferil. Hann er verðugur fulltrúi þess gróskumikla myndlistarlífs sem nú blómstrar í landinu auk þess sem verk hans hafa sterkar tilvísanir í menningarlegar hefðir, sögu og sammannlega reynslu.

Sýningu Steingríms Eyfjörð, fulltrúa íslendinga á Feneyjatvíæringnum 2007, lauk í gær.

Val á fulltrúa Íslendinga á Feneyjatvíæringinn 2009 var í höndum fagráðs Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, en fagráðið skipa: Christian Schoen, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvarinnar, Hafþór Yngvason, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur og Rúrí, myndlistarmaður. Gestir nefndarinnar við valið voru Halldór Björn Runólfsson, forstöðu­maður Listasafns Íslands, og Kristján Steingrímur Jónsson, deildarforseti myndlistar í Listaháskóla Íslands.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með þátttöku Íslendinga í Feneyja­tvíæringnum.

Myndir og myndbönd af ýmsum eldri verkum Ragnars má skoða á slóðinni: www.ragnarkjartansson.com