Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sektaðir um eina milljón króna hvor um sig í réttarfarssekt. Gestur var verjandi Sigurðar Einarssonar í Al Thani-málinu í vor en Ragnar H. Hall lögmaður Ólafs Ólafssonar. Þeir báðust báðir lausnar frá málinu á þeim forsendum að brotið hafi verið á hagsmunum og mannréttindum skjólstæðinga sinna  í málsmeðferðinni. Fyrirhuguðum réttarhöldum í málinu frestað fram á haust og þeim Sigurði og Ólafi skipaðir nýir verjendur. Aðalmeðferð hófst svo nú í nóvember.

Þeir Gestur og Ragnar mættu báðir við dómsuppkvaðningu í Al Thani-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Dómur féll í Al Thani-málinu nú klukkan þrjú. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi vegna aðildar sinnar í því. Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður bankans, hlaut fimm ára dóm, Ólafur Ólafsson hlaut þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, þriggja ára dóm.