Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur til þess að greiða þeim Árna Haukssyni og Friðriki Hallbirni Karlssyni samtals 600 þúsund krónur í miskabætur. Ragnar sagði í tveimur greinum sem hann skrifaði og Morgunblaðið birti í fyrra í tengslum viðskipti þeirra Árna og Friðriks með Húsasmiðjuna og hlutabréf Haga þá vera „féfletta".

Miskabæturnar deilast jafnt niður á þá Árna og Friðrik auk þess sem ummælin skulu dæmd dauð og ómerk. Við miskabæturnar bætast 200 þúsund krónur sem Ragnar þarf að greiða fyrir að birta dóminn í opinuberu blaði. Ofan á fjárhæðina bætist svo 600 þúsund króna málsvarnarlaun þeirra Árna og Friðriks sem Ragnar þarf að greiða.

Þeir Árni og Friðrik stefndu Ragnari vegna skrifanna seint í desember í fyrra og kröfðust þá hvor um sig miskabóta upp á 800 þúsund krónur.

Var svolítið harðorður

Ragnar viðurkenndi í samtali við Fréttablaðið seint í desember í fyrra að hafa verið svolítið harðorður um þetta mál. Hann taldi hins vegar óhjákvæmilegt að taka þessi mál til alvarlegrar umræðu, menn geti verið eins skýrmæltir um þau og þeir telji þurfa.

„Ég álít þess vegna að mín ummæli séu að öllu leyti réttlætanleg og dreg ekki á nokkurn hátt í land með þau,“ sagði hann í samtali við blaðið.

Spurður um orðið „féfletta“ svaraði Ragnar: „Fjárfestir er heiðursnafnbót, en þeir sem leggja stund á eignatilfærslur – skyndigróða af þessu tagi – þeir eiga ekki rétt á að nota það orð. Þeir þurfa annað fagheiti og mín uppástunga er sú að það orð verði notað um alla þá sem þetta stunda.“

Tilhæfulaust og ærumeiðandi

Eins og Vísir segir frá málinu birtust greinar Ragnars í Morgunblaðinu annars vegar í lok ágúst og hins vegar í lok september. Ragnar sagði þá Árna og Friðrik ítrekað „féfletta" með þeim rökum að þeir hefðu stundað eignatilfærslur en ekki fjárfestingar og þannig hagnast óeðlilega á kostnað hluthafa. Það eru þau ummæli sem krafist var ómerkingar á.

Vísir segir dómara hafa talið ummæli Ragnars „ólögmæt meingerð gegn persónu og æru stefnenda" og beri hann því miskaábyrgð. Þá þóttu honum ummæli Ragnars í heild sinni „algerlega tilhæfulaus, óviðurkvæmileg og ærumeiðandi í því samhengi sem þau voru birt." Því sé niðurstaða dómsins sú að ummælin í heild séu móðgandi og meiðandi fyrir stefndendur.