„Að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum í 12% er alveg út í hött enda blæðir fyrirtækjum og heimilum áfram á meðan að sparifjáreigendur og erlendir jöklabréfaeigendur græða á tá og fingri. Þess má geta að Ungverjar, sem eru í meiri klípu en við, lækkuðu um 100 punkta þann 27. júlí niður í 8.5% en þess má geta að IMF er með Ungverja Í gíslingu eins og okkur," sagði Ragnar Þórisson, vogunarsjóðsstjóri hjá Boreas Capital í samtali við Viðskiptablaðið.

,,Þessi peninganefnd Seðlabankans virðist ekki hafa „götugreind“  til að skilja að íslenska krónan mun styrkjast ef stýrivextir verða lækkaðir, samanber það sem gerst hefur í Tyrklandi en þeir hafa lækkað stýrivexti um 850 punkta á síðustu 8 mánuðum, niður í 8.25%, og á meðan hefur tyrkneska líran styrkst!

Það er einu sinni þannig að það þarf nýja peninga og fjárfesta inn í kerfið til að íslenska krónan styrkist og það er ekki að gerast. Það er engin ástæða að dekra við þá sem eru fastir inní kerfinu eins og jöklabréfaeigendur með þessum vöxtum. Ég hefði viljað sjá stýrivextina niður fyrir 10% í þessu skoti. Það er orðið vel heitt undir sæti forsætisráðherra sem lofaði þann 5. maí að stýrivextir færu niður fyrir 2% fyrir ármót,“ segir Ragnar Þórisson vogunarsjóðsstjóri hjá Boreas Capital.