Léleg frammistaða hagkerfisins frá hruni, minni kaupmáttur, lítil fjárfesting, atvinnuleysi og hallarekstur ríkissjóðs stafar allt af rangri efnahagsstefnu hér á landi í kjölfar hrunsins að mati Ragnars Árnasonar hagfræðiprófessors. Í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag segir hann að þessi efnahagsstefna einkennist af skattahækkunum, gríðarlegri opinberri eyðslu, miðstýringaráráttu, gjaldeyrishömlum og almennri haftatrú, árásum á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og almennri andúð á einkaframtaki og framleiðslu starfsemi. Segir hann að að verði ekki gjörbreytt um efnahagsstefnu sé nánast öruggt að kaupmáttur og lífskjör hér á landi muni halda áfram að dragast aftur úr nágrannalöndunum.

Meðal þess sem fram kemur í grein Ragnars er að hin mikla skuldsetning þjóðarinnar í kjölfar bankahrunsins 2008 hafi krafist almenns sparnaðar í þjóðarbúinu. „Þjóðin varð og verður enn að leggja verulega fjármuni til hliðar til að greiða erlendar skuldir og styrkja efnahag heimila og fyrirtækja. Þá bregður hins vegar svo við að ríkissjóður gengur á undan með vondu fordæmi. Á hverju einasta ári frá árinu 2009 hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög miklum halla. Fram til 2012 hefur þessi halli verið yfir 7% af landsframleiðslu að meðaltali. Jafnvel þótt árinu 2009 sé sleppt, þar sem þá voru nokkur sérstök útgjöld vegna hrunsins, er hallinn frá 2010 enn um 6,4% af vergri landsframleiðslu eða yfir 100 milljarðar króna á ári að jafnaði. Þessi halli hefur auðvitað endurspeglast í hraðvaxta uppsöfnun opinberra skulda. Opinberar skuldir voru nánast engar árið 2007 en voru orðnar um 60% af VLF í árslok 2012,“ segir í grein Ragnars.

Þá segir hann að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi verið 20% lægri árið 2012 en hann var á árinu 2007. „Þannig hafa heimilin í landinu tekið á sig miklu meiri byrðar en nemur minnkaðri landsframleiðslu. Þar ræður mestu stóraukin skattheimta og laun sem hafa dregist stórlega aftur úr verðbólgu. Sorglega lítið hefur miðað í því að rétta af fjárhag skuldsettra heimila. Núna meira en fjórum árum eftir áfallið 2008 verður ekki betur séð en fjöldi heimila sé enn í alvarlegri skuldakreppu.“