*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 13. desember 2017 11:00

Ragnar segist gjörsamlega misboðið

Formaður VR segist orðlaus í löngum pistli yfir bónusgreiðslum meðal annars til stjórnarmanns í umboði lífeyrissjóða.

Ritstjórn

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir mögulegar bónusgreiður upp á allt að 60 milljónir króna, ef vel gengur með söluna á Lykli, viðbjóðslegar.

Klakki, eigandi alls hlutafés í Lykli hefur ákveðið að lykilstjórnendur og stjórnarmenn, þar á meðal fulltrúi lífeyrissjóðanna í stjórn, geti fengið samtals allt að 550 milljónum króna ef sala fyrirtækisins uppfyllir ákveðin skilyrði. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

„Ég átti erfitt með að hemja tilfinningar mínar þegar ég las þessa frétt. Mér er svo gjörsamlega misboðið að ég á varla til eitt einasta aukatekið orð,“ segir Ragnar Þór í löngum pistli á facebook síðu sinni, þar sem hann hvetur til þess að fólk mótmæli á föstudag fyrir utan höfuðstöðvar Lykils.

„Saga Existu, nú Klakki, Lykils, áður Lýsingu, og þeirra félaga sem þar voru undir er líklega sorglegasta saga hrunsins og eftirmálum þess. Að stjórnendur skuli voga sér að þiggja slíka bónusa er ekki bara grátlegt heldur algjörlega siðlaust.“

Segir forstjóra Bakkavarar hæðast að lífeyrissjóðunum

Segir hann nú níu árum frá hruni almenning enn þá að fá á sig ískaldar vatnsgusur frá siðlausu fjármála og viðskiptalífi.

„Og alltaf skulu lífeyrissjóðirnir okkar tengjast þessum fyrirtækjum og hrunmálum. Nú nýlega sendi Ágúst Guðmundsson forstjóri Bakkavarar frá sér yfirlýsingu þar sem hann nánast hæddist að íslenskum lífeyrissjóðum fyrir að selja þeim bræðrum hluti í Bakkavör langt undir markaðsvirði og ljóst að lífeyrissjóðir okkar urðu af gríðarlegum upphæðum.Enn ein rósin í hnappagat viðskipta sjóðanna við þá bræður.“

Stikkorð: Klakki VR Lykill Ragnar Þór Ingólfsson