Ragnar Páll Dyer, fjármálastjóri Kviku banka, seldi í dag hlutabréf í bankanum fyrir 79,2 milljónir króna í gegnum eignarhaldsfélagið sitt H33 Invest. Alls seldi hann 3 milljónir að nafnverði á genginu 26,4 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ragnar nýtti áskriftarréttindi til að kaupa 6,5 milljónir hluti á genginu 7,21 krónur á hlut fyrir liðlega 46,9 milljónir króna í lok september.

Ekki er lengur gefið upp í tilkynningum sem þessum hvað viðkomandi stjórnandi fer með stóran hlut í fyrirtækjunum. Eftir að Ragnar nýtti sér áskriftarréttindi í lok ágúst kom fram að hann átti tæplega 2,53 milljónir hluti í Kviku. Eftir viðskiptin í dag má ætla að Ragnar fari áfram með tæplega 6 milljónir hluti í Kviku, að markaðsvirði um 160 milljónum króna miðað við lokagengi bankans í dag, auk áskriftarréttinda.

Um miðjan desembermánuð skrifaði Ragnar, líkt og aðrir stjórnendur Kviku, undir kaupréttarsamning sem veitir honum rétt til kaupa allt að 56.732 hluti í Kviku á ári, næstu þrjú árin, á genginu 26,44 krónur á hlut eða fyrir um 1,5 milljónir króna, að uppfylltum nánari skilyrðum samningsins.