„Það eina sem mér dettur í hug er Sértrúarsöfnuður Arðræningja," segir í niðurlagi pistils Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á Vísi.is og vísar Ragnar Þór þarna til málflutnings Samtaka atvinnulífsins. Tilefni skrifa Ragnars Þórs eru umræður sem fóru fram í sjónvarpsþættinum Víglínunni á Stöð 2, en þar mættust þau Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Drífa Snædal, forseti ASÍ. Þar viðraði Halldór Benjamín m.a. áhyggjur SA um að samningsbundnar launahækkanir á almennum vinnumarkaði, sem koma til skjalanna um næstu áramót, muni leiða til enn meira atvinnuleysis. Því hafi samtökin lagt til að launahækkanir myndu frestast þar til birta tekur á ný í hagkerfinu. Drífa sagði aftur á móti að það besta sem hægt væri að gera fyrir íslenskt atvinnulíf og einstaklinga núna sé að standa við gerða samninga.

Ýmislegt fleira fór þeirra á milli en miðað við skrif Ragnars Þórs þá mislíkaði honum málflutningur Halldórs Benjamíns. „Ég hef reynt að temja mér hófsemi í orðalagi og einbeitt mér frekar að tölum og staðreyndum. En nú er mér svo misboðið að ég á orðið erfitt með að greina fyrir hvað eða hverja málflutningur SA stendur," segir formaður VR m.a. í pistlinum. Þá spyr hann „hvernig talsmaður atvinnulífsins getur verið svo samviskulaus og ósanngjarn gagnvart vinnandi fólki, almenningi í landinu?"

„Sjúklegt viðhorf" SA

„Nú þekki ég marga sem eiga eða stjórna fyrirtækjum og get sagt með vissu að þetta sjúklega viðhorf SA er ekki að finna í samtölum mínum þar. Þvert á móti finn ég fyrir mikilli samkennd og skilningi fyrir því hvað við í verkalýðshreyfingunni erum að gera og þeim markmiðum sem við viljum ná. Við erum ekki alltaf sammála um leiðir en markmiðin eru þau sömu. Að bæta lífskjör. Að skila betra samfélagi til afkomenda okkar. Ég þekki ekki þann stjórnanda eða eiganda fyrirtækis sem er á móti þessum markmiðum," segir í pistli Ragnars Þórs.

Halldór Benjamnín og „sértrúarsöfnuður hans" haldi nú launavísitölunni á lofti sem „hið heilaga gagn sem staðfesti brjálsemi og sturlun verkalýðshreyfingarinnar og vegferð".

„Þetta eru sömu samtök og hafa staðfastlega haldið því fram að launavísitalan sé ómarktæk og ofmæli ekki bara launaskrið heldur beinlínis ýti undir það. Það var meira að segja fenginn erlendur sérfræðingur Dr.Kim nokkur, til að skrifa heilmikla skýrslu um málið, málflutningi SA til stuðnings," skrifar Ragnar Þór.

En nú skuli launavísitölunni haldið á lofti í „áróðri" SA gegn vinnandi fólki. Launavísitala sem áður þótti ómarktæk er sé vopn í baráttunni fyrir lægri launum.

„Ekkert tilliti skal tekið til verðlagshækkana eða þróun gengis. Ekkert tillit skal tekið til samanburðar á kostnaði við að lifa, miðað við Norðurlöndin, eða mikilvægi þess að verja lífskjör þegar kreppir að. Ekkert tillit skal tekið til þess að í niðursveiflum og kreppum taka markaðslaun skell og því mikilvægast að verja grunninn," skrifar formaður VR, en pistilinn má lesa í heild sinni hér .