*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 12. mars 2021 14:25

Ragnar Þór endurkjörinn formaður VR

Ragnar Þór Ingólfsson hlaut 65% greiddra atkvæða í formannskosningu VR sem lauk í hádeginu.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson hefur verið endurkjörinn formaður VR til tveggja ára en kosningu lauk í hádeginu í dag. Hann hlaut 6.526 atkvæði eða um 63% greiddra atkvæða. Alls greiddu 10.346 atkvæði í kosningunum og var þátttakan því 28,8%. 

Helga Guðrún Jónasdóttur, stjórnmála-og fjölmiðlafræðingur, bauð sig fram gegn Ragnari en hún hlaut 3.549 atkvæði eða um 34,3% greiddra atkvæða. Alls tóku 271 félagsmenn VR eða um 2,6% greiddra atkvæða, ekki afstöðu í formannskjörinu. 

Einnig var kosið í stjórn VR sem skipar sjö stjórnarmenn. Eftirfarandi einstaklingar voru kosnir í stjórnina til tveggja ára:

  • Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir
  • Jón Steinar Brynjarsson
  • Helga Ingólfsdóttir
  • Sigurður Sigfússon 
  • Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir
  • Þórir Hilmarsson
  • Harpa Sævarsdóttir 

Varamenn í stjórn VR sem voru kosnir til eins árs verða Jónas Yngvi Ásgrímsson, Sigríður Hallgrímsdóttir og Arnþór Sigurðsson. 

Alls voru 35.919 á kjörskrá. Atkvæðisrétt í kosningunum hörðu allir fullgildir VR-félagar ásamt eldri félagsmönnum sem greiddu eitthvert félagsgjald á 67. aldursári og höfðu greitt a.m.k. 50 mánuði af 60 á síðustu fimm árum áður en þeir urðu 67 ára.