*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 6. mars 2019 08:41

Ragnar Þór fagnar kjarapakkanum

Formaður VR segir útspil Sjálfstæðismanna í Reykjavík fagnaðarefni en borgarstjórinn kallar það bull.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR, sem nú er í miðri kjarabaráttu.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir svokallaðan kjarapakka Sjálfstæðismanna, sem sitja í minnihluta í borgarstjórn, fagnaðarefni og gott innlegg að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Sérstaklega þar sem komið væri að því að ræða gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar sem hafi áhrif á vísitölu neysluverðs og þar af leiðandi á verðtrygginguna. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um leggja Sjálfstæðismenn til að álögur á hvert heimili lækki um 10 þúsund krónur á mánuði.

„Þarna er verið að koma inn á byggingarréttargjöldin sem hafa áhrif á húsnæðis- og leiguverð. Þarna eru tillögur, eins og með lækkun útsvars, sem opna á auknar ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna sem búa í Reykjavík,“ segir Ragnar Þór.

„Ég fagna því að kjörnir fulltrúar sveitarfélaga séu farnir að taka tillit til þeirrar alvarlegu stöðu sem er komin upp á vinnumarkaði og hugsa lausnamiðað í þeim efnum.“

Meirihlutinn styður ekki tillögurnar

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn lýsir vonbrigðum með að meirihlutinn styðji ekki tillögurnar, því borgin myndi hagnast á því að kjarasamningar yrðu kláraðir.

„Stóra myndin er sú að ef kjarasamningar nást án þess að stöðugleika sé raskað, að allt fari á hliðina með fjöldagjaldþrotum fyrirtækja eða verðbólgu, þá fær borgin ávinninginn.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kallar kjarapakkann hins vegar lýðskrum til að slá ryki í augu kjósenda, þær væru bæði ófjármagnaðar og óábyrgar því þær þýddu 5 milljarða gat í fjármálum borgarinnar. „Þetta er svokallað bull. Innihaldslaust og ábyrgðarlaust bull.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is