Ragnar Þór Pétursson, sem meðal annars er pistlahöfundur á Stundinni , hefur verið kjörinn formaður Kennarasambands Íslands. Ragnar Þór bar sigurorð af tveimur mótframbjóðendum sínum með rúmlega helmingi atkvæða, 3.205 eða 56,3% af þeim 5.691 sem greiddu atkvæði.

Guðríður Arnardóttir hlaut 1.944 atkvæði, eða 34,2%, en Ólafur Loftsson hlaut 392 atkvæði eða 6,9%, og auðir seðlar voru 150, eða 2,6%. Á kjörskrá voru 10.675, svo kosningaþátttakan nam rétt um 53,3% en atkvæðagreiðslan hefur farið fram á netinu síðan um mánaðamótin.

Ragnar Þór tekur við formennsku af Þórði Árna Hjaltested á VII þingi Kennarasambandsins sem fram fer í apríl á næsta ári að því er fram kemur á vef kennarasambandsins. Þórður lætur þá af embætti en hann hefur gegnt formennsku í KÍ frá árinu 2011. Eiríkur Jónsson var fyrsti formaður KÍ, sat frá árinu 2000 til 2011.

Ragnar Þór lauk prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2001, og síðan lauk hann kennsluréttindanámi á grunn- og framhaldsskólastigi frá Háskólanum á Akureyri, þar sem hann stundaði framhaldsnám.

Að því er segir á heimasíðu Norðlingaskóla hefur hann kennt í þremur landsfjórðungum, í allt frá pínulitlum sveitaskólum upp í stóra þéttbýlisskóla og hans helsta fyrirmynd í lífinu er Góði dátinn Svejk.