*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 1. apríl 2020 14:52

Ragnar Þór úr miðstjórn ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt sig úr miðstjórn ASÍ. Ósáttur við að ASÍ hafi „ákveðið að gera ekki neitt.“

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt sig úr stjórn ASÍ, en hann telur að svo stöddu sé kröftum sínum ekki vel varið í að taka þátt í starfi sambandsins. Kjarninn greinir frá þessu. 

Fyrir skömmu var greint frá því að Vilhjálmur Birgisson hefði sagt af sér sem fyrsti forseti ASÍ. 

Að sögn Ragnars Þórs hefur átt sér stað ágreiningur innan ASÍ um hver viðbrögð sambandsins við því alvarlega ástandi sem COVID-19 hefur í för með sér ættu að vera.

„Það var lagt til að fresta kauphækkunum. Það kom ekki til greina af okkar hálfu. Okkar sýn hefur alltaf verið sú að verja kaupmáttinn, verja launahækkunina og verja störfin,“ segir Ragnar Þór í samtali við Kjarnann. Slíkum tillögum VR hafi verið hafnað af samninganefnd ASÍ. 

Ragnar Þór og fyrrnefndur Vilhjálmur lögðu til að fallist yrði á tímabundna lækkun mótframlaga atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrði lækkað úr 11,5% niður í 8%. Samtök atvinnulífsins höfðu farið þess á leit við ASÍ að gripið yrði til slíkra aðgerða en ASÍ hafnaði þeirri tillögu.

Segir Ragnar Þór í samtali við Kjarnan að í stað þess að fara aðra hvora leiðina (frestun launahækkana og tímabundin lækkun mótframlags í lífeyrissjóði) hafi ASÍ ákveðið að fara verstu mögulegu leiðina, með því að gera ekki neitt.