Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hefur gefið kost á sér sem fyrsti varaformaður Alþýðusambands Íslands á 43. þingi sambandsins sem fram fer 24. - 26. október næstkomandi að því er Fréttablaðið greinir frá. Vilhjálmur Birgisson og Kristján Þórður Snæbjarnarson bjóða sig einnig fram til forystu.

Segist Ragnar vona að þingið marki tímamót og að dregið verði strik í sandinn í átökum innan verkalýðshreyfingarinnar. „Þannig getum við einbeitt okkur að því að fara að vinna saman,“ segir Ragnar en félag hans leggur fram kröfugerð sína næstkomandi mánudag.

„Miðað við kröfugerð Starfsgreinasambandsins finnst mér líkurnar á samfloti hafa aukist til mikilla muna. Ég sé mikinn samhljóm milli okkar og ekki nein efnisleg atriði sem við myndum setja okkur upp á móti.“

Segir kröfurnar eðlilegar og sanngjarnar

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, stærsta aðildarfélags Starfsgreinasambandsins segir það algert lykilatriði til að ná árangri í komandi kjaraviðræðum að vera í samfloti með VR, en Ragnar Þór studdi framboð Sólveigar í Eflingu.

„Félagsmenn hafa lýst yfir mikilli gleði og ánægju með kröfugerðina,“ segir Sólveig Anna en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er þar m.a. krafist 425 þúsund króna lágmarkslauna. „Ég er ánægð með að við náðum að móta svona kröftuga kröfugerð og leyfi mér að vera bjartsýn á framhaldið því þetta eru eðlilegar og sanngjarnar kröfur.“

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur jafnframt boðið sig fram sem 2. varaformaður ASÍ, en til viðbótar hefur formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Kristján Þórður Snæbjarnarson lýst yfir vilja til að bjóða sig fram til forystu að því er Morgunblaðið greinir frá.„Ég hef alla vega ákveðið að gefa kost á mér í sæti varaforseta,“ segir Kristján.

,,Ég hef alla vega ákveðið að gefa kost á mér í sæti varaforseta,“ segir Kristján.