Snjóblinda, glæpasaga Ragnars Jónassonar, komst í gær í efsta sæti metsölulista Amazon í Ástralíu yfir rafbækur og slær þar við metsölubókum á borð við Konuna í lestinni eftir Paulu Hawkins og Grey eftir E.L. James.

Fram kemur í tilkynningu að ekki sé vitað til þess að íslensk bók hafi áður náð efsta sæti metsölulista í Ástralíu. Ragnar náði sama árangri í Bretlandi í maí, en þá varð Snjóblinda óvænt mest selda rafbókin á Amazon þar í landi.

Snjóblinda, eða Snowblind eins og bókin kallast á ensku, er fyrsta bók Ragnars sem kemur út á ensku. Önnur bók úr Siglufjarðarsyrpu Ragnars er væntanleg í enskri þýðingu fyrir jólin í Bretlandi. Þá var greint frá því í síðustu viku að bandaríska bókaforlagið St. Martin's Press hefði tryggt sér réttinnn á tveimur bókum úr seríunni.

Ragnar leggur nú lokahönd á nýja bók sem ekki er hluti af Siglufjarðarsyrpunni, en þar segir frá lögreglukonu í Reykjavík sem er að fara á eftirlaun en þarf að leysa eitt sakamál að lokum.