„Við vorum í raun bara að undirbúa viðræðurnar.  Þær voru ekki komnar lengra en það.“ segir Ragnar Z. Guðjónsson, sparissjóðsstjóri Byrs, í samtali við Viðskiptablaðið.  Hann segir að sameiningarviðræðurnar við Glitni hafi verið á algjöru byrjunarstigi.

Stendur ekki til að ræða við aðra aðila

Í fréttatilkynningu Byrs sparisjóðs, sem send var út í morgun er vísað til frétta af Glitni banka hf. frá því fyrr í dag til skýringar á því hvers vegna sameiningarviðræðunum hafi verið hætt.  Ragnar segir tíðindin alls ekkert áfall fyrir Byr og þvertekur hann fyrir að það standi til að ræða við aðra aðila um hugsanlega sameiningu. „Við höfum verið að klára þessa hlutafélagavæðingu og höfum alltaf sagt í því ferli að við ætluðum ekki að ræða við einn né neinn um þau efni. Síðan þegar við fengum heimild frá Fjármálaeftirlitinu til þess að hlutafjárvæða þá barst strax erindi frá Glitni og stjórnin tók þá ákvörðun að kanna nánar hvað gæti komi út úr þeim viðræðum.“  Hann bætir við að í ljósi nýliðinna atburða hafi sameiningarviðræðunum síðan verið sjálfhætt.

Staða sparsjóðsins sterk

Í fréttatilkynningu sparisjóðsins kemur ennfremur fram að staða Byrs sé sem fyrr sterk og áhersla verði lögð á að viðhalda núverandi styrk sparisjóðsins. Ragnar segir mikilvægt að rasa ekki um ráð fram á þessum óvissutímum.  „Við reynum bara að halda sjó í þessu stórviðri sem nú gengur yfir.“