Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mun leggja það til við stjórn félagsins að fyrri yfirlýsing um sniðgöngu á hlutafjárútboði Icelandair verði dregin til baka. Frá þessu greinir hann í bréfi til félagsmanna. Umfjöllun á vef Vísi.

Áður hafði verið sagt frá því að VR hygðist beina þeim tilmælum til stjórnarmanna sinna í Lífeyrissjóði Verzlunarmanna að sniðganga frekari fjárfestingar í Icelandair í komandi hlutafjárútboði. Nú segir Ragnar að hann líti á það sem viðleitni í að bjarga félaginu að krefjast þess að stjórn félagsins víki, til að liðka fyrir frekari áhuga fjárfesta.

Vill Ragnar koma því á framfæri að yfirlýsingar stjórnar VR hafa verið í nafni þeirrar stöðu sem félagsmenn VR eru í. Þó viðurkennir hann að álykta hafi mátt að þær tengdust baráttu annarra stétta innan félagsins.

„Undanfarið hafa stór orð verið látin falla um málefni Icelandair. Hafa þau verið túlkuð á mismunandi vegu og oft á tíðum afvegaleidd frá kjarna málsins. Félagsmenn VR sem starfa hjá Icelandair hafa tekið á sig starfs- og launaskerðingu sem við höfum mótmælt harðlega. Sömuleiðis útvistun starfa til Filippseyja á meðan félagsmönnum okkar er sagt upp störfum,“ skrifar Ragnar í bréfinu.

Sjá einnig: Fullt hús rangra ákvarðana

„Þó ber að nefna að öll hreyfingin og þá sérstaklega félögin innan ASÍ fóru mjög harkalega fram, sameinuð, þegar samningsréttinum var ógnað. Samningsrétturinn er grundvöllur kjarsamninga og stéttarbaráttunnar eins og við þekkjum hana í dag og grundvöllur fyrir þeim lífskjörum og réttindum sem við teljum sjálfsögð í okkar samfélagi,“ kemur einnig fram í bréfinu.

Munu beita öllum ráðum til að bjarga félaginu

Ragnar segir frá því að honum hafi borist póstar frá félagsmönnum sem lýst hafa óánægju sinni með framgöngu hans, segja að hann sé að vinna fyrir aðra en félagsmenn VR. Enn fremur að þau upplifi sem svo að formaður félagsins sé að beita sér fyrir því að Icelandair fari í þrot.

„Til að taka af allan vafa þá viljum við bjarga félaginu. Með öllum ráðum munum við beita okkur fyrir því að það verði gert. Ég hef hinsvegar haft miklar efasemdir um að það sé gerlegt með núverandi stjórn félagsins við völd. Það er ekki bara mín skoðun heldur margra sem starfa innan lífeyrissjóðanna eða eru í fjárfestingum almennt,“ skrifar Ragnar.

„Ég mun leggja það til við stjórn VR að fyrri yfirlýsing um sniðgöngu útboðs verði dregin til baka. Ekki vegna þess að það samdist við flugfreyjur og ekki vegna þess að samningsrétti og framtíð stéttarfélaga var bjargað fyrir horn heldur vegna þess að við erum í vinnu fyrir ykkur en ekki öfugt.“