*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 2. nóvember 2019 19:01

Ragnars verði deiliþjónusta tískunnar

Nýr markaðsvettvangur miðlar þjónustu stílista á svipuðan hátt og Upwork, Airbnb og Uber gera í vaxandi deilihagkerfinu.

Höskuldur Marselíusarson
Ellen Ragnars Sverrisdóttir vann um tíma fyrir Kaupþing þar sem hún fékk fatapeninga líkt og er algengt í fjármálaheiminum í London, en þar hóf hún rekstur markaðsvettvangsins Ragnars fyrir stílista og tískuheiminn almennt.
Gígja Einars

Það kannast eflaust margir við það að hafa verið á ferð í fataverslun og óska þess að einhver kunnáttumanneskja væri með í för til þess að finna heppilegan klæðnað fyrir mismunandi viðburði. Það voru einmitt slíkar aðstæður sem voru innblástur Ellenar Ragnars Sverrisdóttur að markaðsvettvanginum Ragnars sem hún hefur komið á fót fyrir þjónustu stílista, en hún segir vaxtatækifæri þessa markaðar mikið.

Hugmyndin er að gera þjónustu þeirra sem kunna á tísku og hönnun aðgengilega almenningi í gegnum deilihagkerfið, og verktakamarkaðinn sem vaxið hefur samhliða, á svipuðum nótum og Airbnb og Uber hafa gert fyrir íbúðir og bílstjóra. Ellen segir að hingað til hafi stílistaþjónusta verið nokkuð falin almenningi og að því er virðist fyrst og fremst á færi hinna ríku og frægu.

„Gigghagkerfið svokallaða er um 500 milljarða dala markaður sem hefur verið að vaxa um 17% á ári síðustu ár. Stækkar til dæmis þessi hluti bandarísks vinnumarkaðar þrisvar sinnum hraðar en annar. Ætlunin hjá okkur er að veita stílistum tækifæri til að bjóða þjónustu sína á viðráðanlegu verði líkt og ýmis annar vettvangur gerir fyrir aðrar greinar. Það er til dæmis vettvangur sem sérhæfir sig fyrir forritara, annar fyrir grafíska hönnuði og svo framvegis, og svo deiliþjónustur eins og Upwork fyrir verktakabransann almennt en enginn hefur sinnt tískuþjónustunni sérstaklega og viljum við verða aðalvettvangurinn fyrir það. Við byrjum smátt, erum með um 40 stílista sem bjóða um 100 mismunandi gerðir þjónustu. Svo erum við að bæta við ljósmyndurum, og sjáum við fyrir okkur mikil vaxtatækifæri í þessu,“ segir Ellen.

„Markaðsáætlun okkar snýst til að byrja með um að kynna vettvanginn til stórfyrirtækja, og erum við nú til að mynda í viðræðum við City Bank í London sem hefur tekið jákvætt í að bjóða starfsmönnum sínum þessa þjónustu. Sem dæmi um markhóp okkar er að á hverju ári ráða stóru fjármálafyrirtækin í London til sín hundruð nýútskrifaða stúdenta og er algengt að starfsfólki bjóðist ekki bara líkamsræktarkort og annað til að auka sjálfstraust sitt í nýju starfi heldur fá þau einnig fatapeninga, líkt og tíðkaðist þegar ég starfaði hjá Kaupþingi hér á árum áður.“

Ellen starfaði lengi sjálf á bæði fjármálamarkaði og í ýmiss konar nýsköpunarfyrirtækjum og segir hún mörg dæmi um að stílistar hafi hjálpað fólki í frama og einkalífinu. „Ég get nefnt framkvæmdastjóra hjá Barclays bankanum sem vann við samruna og yfirtökur en var á sama tíma mjög óöruggur félagslega og fór eiginlega aldrei á stefnumót. Svo hann ákvað að fá sér stílista og völdu þeir saman góðan frakka sem fór honum sérlega vel. Í kjölfarið óx sjálfstraustið enda alltaf verið að hrósa honum fyrir frakkann og í dag er hann vel giftur,“ segir Ellen sem segir að þannig geti þjónusta stílista einnig hjálpað þeim sem séu að snúa aftur á stefnumóta- eða vinnumarkaðinn eftir nokkurt hlé að styrkja sjálfstraustið.

„Við settum fyrstu útgáfu markaðsvettvangsins út í febrúar síðastliðnum, og núna í september kom betri lausn. Með sprotastyrk Tækniþróunarsjóðs höfum við getað sett markið á Lundúnamarkað. Við höfum fengið góð viðbrögð hjá bæði stórfyrirtækjum þar sem við höfum nálgast en einnig stefnumótastofur sem oft veita sínum viðskiptavinum alls kyns þjálfun í hegðun og framkomu og hafa nú áhuga á að bæta svona þjónustu við. Hægt er að kaupa þá þjónustu sem hentar hverjum fyrir sig  beint í gegnum vefsíðu okkar, þar á meðal Íslendingum sem eru á leið til London eða vilja hjálp yfir netið.“