Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur skráð sig í árlegu hjólreiðakeppnina í Gullhringinn. Hún mun hjóla svokallaðan Silfurhring, sem er 48 km langur.

Keppnin verður haldin þriðja árið í röð dagana 10.-13. júlí nk. Keppt verður bæði í einstaklings- og liðakeppni í þremur mismunandi vegalengdum. Eins og nafnið gefur til kynna er Gullhringurinn kenndur við það sem erlendir ferðamenn kalla jafnan „The Golden Circle,“ en það er vinsæll hringur sem inniheldur m.a. Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Það er athafnamaðurinn Einar Bárðarson sem á veg og vanda af keppninni.

Ragnheiður Elín, sem er fyrsti ráðherrann til að skrá sig í keppnina, skrifaði um málið á Fésbókarsíðu sína í gær: „Hvað er ég búin að koma mér i núna..? Lét vin minn Einar Bárðarson tala mig inn á það að taka þátt í hjólreiðakeppninni Gullni hringurinn þann 12. júlí og hjóla 46 km. Það verður eitthvað. En það verður allavega ekkert mál að finna mig ef ég týnist.“