Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var á faraldsfæti í vikunni þegar hún sótti IMEX ferðakaupstefnuna í Frankfurt. Tók hún meðal annars þátt í sérstökum umræðum (Politicians Forum), þar sem rúmlega 30 stjórnmálamenn og um 20 forystumenn í ferðaþjónustunni víð vegar að úr heiminum skiptust á skoðunum. Auk þess tók Ragnheiður Elín þátt í sérstökum hringborðsumræðum, þar sem ráðherrar og embættismenn frá 12 löndum ræddu um umhverfi „MICE-markaðar“ í hverju landi, en þar er átt við þann hluta ferðaþjónustunnar sem snýr að ráðstefnum, alþjóðlegum fundum, hvataferðum, sýningum og viðburðum. Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að MICE-markaðurinn standi í dag undir um 15% tekna af ferðaþjónustu á Íslandi.