Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og starfandi innanríkisráðherra, var meðal þeirra sem tóku til máls á kynningarfundi í dag þar sem skýrsla um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur var kynnt. Þar lýsti hún yfir ánægju með verkefnið og sagði það samræmast vel stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún sagði þó að lestin væri ekki orðin að veruleika, um langhlaup væri að ræða og tíminn þyrfti að skera úr um framvindu mála. Eins og VB.is greindi frá fyrr í dag er talið að undirbúningur við framkvæmd verkefnisins geti hafist strax á næsta ári.

Í samtali við Viðskiptablaðið segist Ragnheiði Elínu lítast vel á verkefnið. „Miðað við þær forsendur sem hér eru komnar á blað þá er þetta sannarlega spennandi verkefni. Það sem er spennandi við þetta er að hér er um að ræða verkefni með mikinn samfélagslegan ávinning, menn reikna út 40-60 milljarða, án þess að ríki og sveitarfélög komi að verkefninu með skattfé. Það hljóta að vera gleðitíðindi fyrir okkur sem förum með skattfé almennings,“ segir Ragnheiður Elín.

Ekki er lagt upp með að hið opinbera fjármagni verkefnið heldur verði slíkt í höndum einkaaðila. Ragnheiður fagnar því, það sé hennar skoðun að hið opinbera eigi ekki að fjármagna slíkar framkvæmdir ef einkaaðilar eru í stakk búnir til þess. „Mér finnst það vera stór forsenda í þessu og mjög jákvæð forsenda að hér séu einkaaðilar sem sjá sér hag í því að fara af stað með þetta verkefni og vonandi fá arð af henni í framtíðinni.“

Skattamál engin hindrun

Aðspurð segist Ragnheiður bjartsýn á að fjárfestar sýni verkefninu áhuga. „Ef að verkefnið er gott og útreikningar standast þá er ég bjartsýn á það. Þetta er ekki bara samgöngubót, margt annað er jákvætt í þessu, við erum að nota innlenda græna orku, færa samfélög saman og margt fleira.“

Í skýrslunni kemur fram að skattamál muni hafa veruleg áhrif á arðsemi verkefnisins. Engin lög eru í gildi um lestir á Íslandi og því þyrfti að leggjast í töluverða vinnu við að skýra lagaheimild utan um hraðlestina. Ragnheiður telur að það verði ekki vandamál. „Ég geri ráð fyrir að slíkt yrði ekki hindrun í þessu. Ég veit að innanríkisráðherra er jákvæð gagnvart þessu verkefni á sömu forsendum og ég þannig ég á ekki von á öðru en að af þeirri vinnu verði og það muni ekkert standa á henni,“ segir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.