Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist ekki vera að baki dottin þó svo að hugmynd hennar um náttúrupassa hafi ekki orðið að veruleika. Hún er enn sannfærð um að passinn sé góð leið til gjaldtöku á ferðamönnum þó hann sé ekki gallalaus, en þetta kom fram í föstudagsviðtali Fréttablaðsins .

Ragnheiður segir mikilvægt að finna gjaldtökuleiðir sem bitna ekki á Íslendingum umfram það sem gildir um erlenda ferðamenn.

,,Ef við ætlum að leggja komugjöld á ferðamenn, þá eru líka kostir og gallar við það. Mér finnst helsti gallinn sá að vegna alþjóðlegra skuldbindinga þurfum við líka að setja það á innanlandsflug. Íslendingar þurfa að borga það þegar þeir fljúga innanlands. Það var eitt af markmiðunum með náttúrupassanum, að fá nýjar tekjur af ferðamönnum en ekki meira af Íslendingum," segir Ragnheiður Elín við Fréttablaðið.

Hún viðurkennir að Íslendingar hefðu einnig þurft að greiða fyrir náttúrupassann en þó miklu minna en ferðamenn.

,,Jú, 500 krónur á ári sem hefðu lagst á Íslendinga. Við vorum að tala um að fá 3-5 milljarða á þremur árum og 85-90 prósent tekna áttu að koma frá erlendum ferðamönnum. Mér hugnast síst að fara blandaða leið, kroppa af öllum," segir Ragnheiður.