„Það verður líklega ekki mikið um ferðalög né útlandaferðir í sumar hjá mér þar sem við hjónin fórum til New York í frí fyrr á árinu," segir Ragnheiður Gröndal söngkona.

Ragnheiður verður að syngja og spila í brúðkaupum flestar helgar í sumar: „Ég mun einnig koma fram á tónlistarhátíðinni Eldur í Húnaþingi í júlí. Svo er ég að standa fyrir tónleikum KÍTÓN (Félag kvenna í tónlist á Íslandi) á kvennafrídaginn 19. júní í Viðey en við erum í samstarfi við Viðey að hefja tónleikaröð sem standa mun yfir í allt sumar og fram á haust. Síðan mun ég leggja land undir fót í ágúst og halda tónleika víðsvegar um Ísland með þremur öðrum tónlistarkonum," segir Ragnheiður.

Hún ætlar þó að slaka á þegar tækifæri gefst: „Ef ég á stund milli stríða munum við fjölskyldan fara í stuttar ferðir í sumarbústaðinn og grilla með góðu fólki og fara í pottinn. Einnig verð ég fastagestur í Yoga Shala og ætla að stunda jóga oft í viku, ganga mikið og njóta þess að það sé loksins komið gott veður og sjá hvort andinn hellist ekki yfir mig til þess að byrja á nýrri plötu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.