Ragnheiður E. Stefánsdóttir hefur verið ráðin sem mannauðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu Reykjavíkurborgar .

Ragnheiður hefur lokið MA gráðu í mannauðsstjórnun. Áður hafði hún lokið B.ed. kennaramenntun og diplómanámi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá EHÍ og stjórnendamarkþjálfun frá HR.

Hún hefur unnið lengi hjá borginni, eða um 30 ár. Á þessum tíma hefur hún meðal annars starfað sem stjórnandi, fræðslustjóri, jafnréttisráðgjafi, mannauðsráðgjafi og starfsmannastjóri, lengst af hjá ÍTR, en einnig hjá SFS frá stofnun sviðsins. Síðastliðinn maí tók Ragnheiður við starfi mannauðsstjóra á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.

Einnig hefur Ragnheiður starfað sem stundakennari við HÍ og kenndi þar stjórnun í 8 ár. Ragnheiður hefur haldið fjölda námskeiða á sviði stjórnunar og mannauðsmála hjá Reykjavíkurborg, Endurmenntun HÍ og fleirum.