Ragnheiður Bragadóttir, landsréttardómari, og Jón Höskuldsson, dómsstjóri Héraðsdóms Reykjaness, hafa verið skipuð dómarar við Landsrétt. Héraðsdómarinn Ástráður Haraldsson, sá þriðji sem metinn var í hópi þriggja hæfustu, hlaut ekki skipun. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Uppfært 12.18: Stjórnarráðið hefur staðfest embættisfærslurnar með tilkynningu .

Af dagskrá ríkisstjórnarfundar í dag má ráða að einum dómara við Landsrétt hafi verið veitt lausn frá embætti og tveir hafi verið skipaðir. Heimildir blaðsins herma að lausnin hafi verið vegna Ragnheiðar en að hún hafi verið skipuð strax í embættið á nýjan leik.

Sjá einnig: Ástráður, Jón og Ragnheiður hæfust

Ragnheiður er einn hinna fjögurra dómara sem hefur ekki sinnt dómstörfum við Landsrétt síðan dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, í Landsréttarmálinu svokallaða, var kveðinn upp. Tvö hinna, þau Ásmundur Helgason og Arnfríður Einarsdóttir, hafa hlotið skipun í réttinn að nýju, líkt og Ragnheiður nú en Jón Finnbjörnsson sinnir ekki dómstörfum.

Téður Jón Höskuldsson var aftur á móti einn hinna fjögurra sem nefnd um hæfni dómaraefna taldi vera í hópi fimmtán hæfustu umsækjendanna þegar Landsréttur var skipaður á einu bretti. Eiríkur Jónsson var einnig í þeim hópi og hefur hann hlotið skipun í réttinn. Hinir tveir, þeir Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Ástráður Haraldsson, voru einnig meðal umsækjenda um stöðurnar tvær núna. Ástráður var ásamt Ragnheiði og Jóni metinn í hópi þriggja hæfustu til að hljóta skipun.

Þessi niðurstaða þýðir að embætti landsréttardómara losnar á nýjan leik sökum þess að Ragnheiður hverfur úr réttinum til að koma aftur inn. Sú staða verður væntanlega auglýst á næstunni. Hið sama gildir um eina stöðu héraðsdómara.