Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við Gísla Martein Baldursson í Sunnudagsmorgni að hún gæti ekki hugsað sér að ganga til liðs við mögulegt nýtt framboð hægrisinnaðra ESB sinna. Ragnheiður sagðist jafnframt enn vera fylgjandi Evrópusambandsaðild en hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn verði að fara í ákveðna naflaskoðun. „Mér finnst að við þurfum aðeins að ræða hugmyndafræðina. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að velta því fyrir sér af hverju hann slæst ekki fyrir afnámi tolla og vörugjalda. Af hverju erum við ekki alltaf að leggja áherslu á lækkun skatta og annarra gjalda?“ sagði Ragnheiður.

Ragnheiður var gestur í þættinum ásamt Ólafi Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins. Spurð að því af hverju hún geti ekki hugsað sér að ganga til liðs við nýjan flokk segist hún enn vera hliðholl honum. „Ég er í Sjáflstæðisflokknum vegna þess að þar eru ákveðin grunngildi sem ég vil standa fyrir. Mér finnst hugmyndafræðilega að ESB aðild eigi ekki að ráða för. Mér samt svo sérstakt að þeir sem eru gagnharðir gegn ESB aðild vilji ekki leyfa fólki að skoða aðildarsamning,“ sagði Ragnheiður.