Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vill álver og kísilver í Helguvík. Hún segir fyrri ríkisstjórn hafa tafið fyrir málinu. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að skoðað verði hvort Landsvirkjun geti útvegað raforku til álversins í Helguvík, þ.e. ef orkan fæst ekki annars staðar.

Í blaðinu er jafnframt rifjað upp að Ragnheiður Elín er frá Suðurnesjum og hefur hún lengi talað um mikilvægi uppbyggingar í Helguvík. Hún hefur að sögn blaðsins beðið starfsfólk ráðuneytisins um að kanna hvort hægt sé að gera sambærilegar ívilnanir í Helguvík og gerðir voru í samningum um álverið á Bakka. Ennfremur láti hún skoða hvort mögulegt sé að starfrækja kísilver í Helguvík.