Fyrirsvarsmenn bandaríska verslunarrisans Costco hafa að undanförnu velt því alvarlega fyrir sér hvort þeir eigi að opna verslun hér á landi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að hún myndi taka því fagnandi ef það gengi eftir.

Spurð hvort hún telji íslenskt lagaumhverfi vera fráhrindandi fyrir Costco segir hún að það kunni að vera. Í meginatriðum sé umhverfi í matvöruverslun þó áþekkt því sem gengur og gerist í Evrópu. „Ef ég set á mig hatt ráðherra samkeppnismála, þá held ég að það sé mjög gott fyrir verslun í landinu að fá samkeppni úr þessari átt. Ég held að það yrði öllum til góðs. Ég tel að það verði neytendum til mikilla hagsbóta og að við munum sjá það í auknu vöruúrvali og vonandi í lækkun vöruverðs. Það er það sem við erum öll að stefna að.“

Costco hefur samt talið ákveðin atriði í íslenskri lagaumgjörð frekar íhaldssöm, ekki satt?

„Varðandi það, þá hafa þeir aldrei komið og sagt: þið verðið að breyta hinu og þessu og þá skulum við koma. Það hefur verið uppi ákveðinn misskilningur í tengslum við það og þeir hafa ekki gert neinar kröfur. Þvert á móti, þeir komu hingað og spurðu hvernig reglurnar væru sem gilda á Íslandi. Við erum búin að vinna vel með þeim þvert á ráðuneyti til þess að upplýsa þá um reglur um merkingar og um lög og reglur varðandi ýmislegt,“ segir Ragnheiður.

Það sé þó rétt að forráðamenn Costco hafi bent á einstaka atriði sem þeir teldu að færi betur á að breyta. Engar kröfur hafi þó komið fram um slíkt af þeirra hálfu. Aðspurð segist Ragnheiður Elín bjartsýn á að Costco muni hefja starfsemi á Íslandi. „Ég er að vonast eftir góðum fréttum þaðan. Maður heyrir af þeirra síðustu heimsókn að þeir séu með umsóknir inni varðandi það að skoða lóðir og annað og ég er vongóð um að þeir komi,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir að lokum.

Ragnheiður Elín er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .