Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að íslenskt atvinnulíf geti ekki borið núverandi vaxtastig mikið lengur. Þetta kemur fram í grein þingmannsins í helgarblaði Viðskiptablaðsins. „Spár benda [...] til að sá verðbólgukúfur sem við búum við núna muni ganga hratt niður og að vaxtalækkunarferli Seðlabankans geti vonandi hafist fyrr en síðar,“ skrifar hún.

Ragnheiður Elín segir að við núverandi aðstæður í efnahagsmálum sé mikilvægt að stjórnvöld fari ekki á taugum. Yfirvegaðar og rétt tímasettar aðgerðir séu mun vænlegri til árangurs en handahófskennd og vanhugsuð viðbrögð.

Þá bendir hún á að líta eigi til jákvæðra teikna og segir að uppgjör bankanna í mánuðinum, sem og jákvæðar fréttir af viðskiptajöfnuði í júní, séu vonandi merki um „að við séum að snúa óhagstæðri þróun okkur í hag.“

Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir mikilvægar

Þingmaðurinn segir enn fremur að mikilvægt sé að auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Stærstu tækifærin liggi í nýtingu náttúruauðlindanna. „Fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík og á Bakka við Húsavík eru okkur efnahagslega afar mikilvægar og eigum við að halda ótrauð áfram á þeirri braut.“