Ragnhildur Geirsdóttir, þáverandi forstjóri FL Group, beitti þrýstingi svo að tæplega þrír milljarðar, sem millifærðir voru af reikningum félagsins, yrðu endurgreiddir. Þetta kemur fram í greinargerð með ákæru gegn Hannesi Smárasyni sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Hannes Smárason er samkvæmt ákærunni sakaður um fjárdrátt fyrir að hafa látið millifæra 46,5 milljónir bandaríkjadala af reikningi FL Group hf. inn á annan reikning félagsins sem hann hafði látið stofna nokkrum dögum fyrr í Kaupþingi í Luxemborg.

Fjármunirnir voru síðan færðir yfir á reikning Fons eignarhaldsfélags hf. en þá ráðstöfun telur sérstakur saksóknari ekki hafa verið í þágu FL Group. Þá hafi hún verið framkvæmd án vitundar, og þar með samþykkis, þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og annarra lykilstjórnenda FL Group.

Í greinargerð saksóknara með ákærunni, sem Fréttablaðið vísar til, kemur fram að Hannes hafi gefið Sveinbirni Indriðasyni fjármálastjóra og Val Stefáni Ásgeirssyni, forstöðumanni fjárreiðudeildar, fyrirmæli um að millifæra þessa upphæð inn á reikninginn í Lúxemborg og þeir hafi gert það. Í greinargerðinni segir einnig að Hannes hafi ekki upplýst stjórnendur og stjórn FL Group um þessa millifærslu. Aðrir en hann hafi ekki haft aðgang að reikningnum í Lúxemborg.

Þá kemur einnig fram að fjármunirnir hafi ekki skilað sér aftur á reikning FL Group frá Fons fyrr en rúmum tveimur mánuðum síðar, eftir þrýsting, meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, Ragnhildi Geirsdóttur. Fyrir þann tíma var millifærslan ekki færð í bókhald félagsins.

Endurgreiðslan kom frá Fons með láni frá Kaupþingi í Lúxemborg og gengust Hannes og Jón Ásgeir Jóhannesson í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar.